Saltfiskur í pil-pil sósu

Hráefni

  • 1 kg vænn saltfiskur
  • 5 hvítlauksgeirar
  • 1/2 þurrkaður, rauður chili-pipar
  • 500 ml extra virgin ólífuolía

Matreiðsla

 

Saltfiskurinn:

Snyrtið saltfiskinn og skerið í 8 stykki, u.þ.b. 125 gr hvert. Hitið fínt sneiddan hvítlaukinn og rautt chiliið, hringskorið, í ólífuolíunni við vægan hita, í víðum, lágbarma (leir)potti eða pönnu. Látið krauma í 30 mínútur/ eða þar um bil uns hvítlaukurinn er orðinn gullinn og olían hefur tekið í sig bragð af honum. Setjið saltfiskstykkin, með roðhliðina upp, út í hvítlauksolíuna, sem ætti að vera u.þ.b. 60°C heit. Látið krauma í 5 til 7 minútur við þennan hita. Færið saltfiskinn upp og setjið í annan sams konar pott ásamt tveimur matskeiðum af hvítlauksolíunni. Hreyfið pottinn rólega í hringi við mjög vægan hita, þannig að hlaupkenndur safinn í fiskinum og olían samlagist smátt og smátt og verði að gulri sósu. Bætið afganginum af olíunni út í smátt og smátt, án þess að hætta að hreyfa pottinn, til þess að þykkja sósuna enn frekar, eins og þegar majónes er búið til. Þetta má ekki sjóða.

Lokahandtök og framreiðsla 

Ljúkið við að þykkja sósuna, hafið hana slétta og ekki of þykka. Smakkið til. Berið saltfiskstykkin fram á pil-pil sósunni og setjið hvítlaukssneiðarnar og chili-hringina ofan á.