Pastakoddar međ saltfisk- og sveppafyllingu

Hráefni

Í pastakoddana (ravíólí) með saltfisk- og sveppafyllingunni þarf:
 • 18 kínversk wonton pasta-blöð
 • 500 gr beikon, gróft mulið
 • 2 lauka, smátt saxaða
 • 1 hvítlauksgeira, saxaðan
 • 200 gr kóngasveppi eða ámóta, saxaða
 • 50 ml hvítvín
 • 1 msk hveiti
 • 150 ml rjóma
 • 100 gr af ferskosti, Philadelphia eða ámóta
 • ögn af fersku timjan
 • ögn af svörtum pipar beint úr kvörninni

 

Í blaðlaukssósuna þarf:
 • 2 vorlauka, saxaða
 • 1 hvítlauksgeira, saxaðan
 • 1/2 gulrót, þunnt sneidda
 • 4 stóra blaðlauka, saxaða
 • 2 meðalstórar kartöflur, gróft skornar
 • 1 l kjúklingasoð
 • 100 ml rjómi
 • 20 gr smjör
 • ólífuolíu
 • salt og pipar

 

í steikta blaðlaukinn þarf:
 • 1 stóran blaðlauk
 • olíu til steikingar

 

Auk þess þarf:
 • Svartan pipar beint úr kvörninni
 • saltflögur
 • óllífuolíu með jarðsveppakeim 

Matreiðsla

 

Pastakoddarnir með saltfisk- og sveppafyllingunni:

Sjóðið kínversku pasta-blöðin í ríkulegu söltu vatni í 25 til 30 sekúndur, færið upp og kælið hratt í ísvatni. Leggið pastablöðin á smjörpappír sem hefur verið penslaður með olíu eða smurðan bökunarpappír. Þekið með filmu og setjið til hliðar. Léttsteikið saxaða kóngasveppina á heitri pönnu eða í potti í nokkrum matskeiðum af ólífuolíu uns þeir hafa mýkst dálítið og tekið lit en eru þó enn stinnir (al dente). Setjið til hliðar. Léttsteikið laukinn og hvítlaukinn í potti/á pönnu. Setjið smátt skorinn saltfiskinn út í og látið krauma í 3 mínútur, bætið sveppunum út í og hrærið til að þetta samlagist. Vætið í með hvítvíninu og látið alkóhólið gufa upp. Kryddið með timjan og pipar, stráið hveiti yfir og haldið áfram að hræra, látið krauma í 2 mínútur í viðbót. Setjið rjómann út í og ostinn og hitið þannig að úr verði tiltölulega létt fars. Saltið. Kælið hratt. Setjið til hlliðar. 

 

Blaðlaukssósan:

Kraumið vorlaukana, hvítlaukinn, gulrótina og blaðlaukana í olíunni og smjörinu. Bætið gróft skornum kartöflunum út í, saltið og piprið. Hellið kjúklingasoðinu út á. Sjóðið við vægan hita uns kartöflurnar eru mjúkar. Maukið grænmetið í matvinnsluvél/blandara. Bætið rjómanum út í smátt og smátt og blandið vel svo úr verði þykk og mjúk blaðlaukssósa. Smakkið sósuna til, síið og haldið heitri.

 

Steikti blaðlaukurinn:

Skerið hvíta hlutann af blaðlauknum í mjóa strimla eða ræmur. Steikið í mikilli olíu þar til strimlarnir eru stökkir og fallega gullinbrúnir. Látið leka af þeim á eldhúspappír, saltið og setjið til hliðar. 

Lokahandtök og framreiðsla 

Setjið u.þ.b. 40 gr af saltfisk- og sveppafyllingunni á miðjuna á hverju pastablaði. Mótið pastakoddana, leggið hliðarnar saman eins og þið séuð að pakka þessu inn. Pakkarnir eiga að vera vel þéttir. Gufusjóðið í ofni og stillið rakastigið á 70%, hafið filmu yfir eða bregðið í örbylgjuofn í 20 til 30 sekúndur. Setjið 3 pastakodda á mann í djúpa diska, hellið heitri blaðlaukssósunni yfir og skreytið með steiktum blaðlauksstrimlunum. Setjið svartan pipar beint úr kvörninni út á, saltflögur og nokkra dropa af ólífuolíu með jarðsveppakeim.